Hvunndagshetjan mín nr. 1, fyrsti kafli

Mig hefur lengi langað til að blogga örlítið um þessa frétt enda málið mér skylt. Hjólreiðamaðurinn er betri helmingurinn að nafni Hallsteinn.

Ungur ökumaður búinn að keyra langa leið frá Borgarnesi, fer slysalaust gegnum 5 hringtorg Vesturlandsvegar áður en hann sofnar undir stýri eftir síðasta hringtorgið og keyrir beint á Hallstein sem var að hjóla rétt utan vegar. Ég var bara á sextíu, segir drengurinn. Ég vaknaði ekki fyrr en hann skall á rúðuna hjá mér og þá fór ég að bremsa.

Hallsteinn flaug 12 metra í loftinu og rúllaði áfram aðra tvo. Endaði á milli akreinanna í átt til Reykjavíkur.

Klukkan var rúmlega níu á sunnudagsmorgni, Hallsteinn að keppast við að ná á hjólaæfingu og veit ekkert fyrr en hann vaknar á spítala seinna þann dag. Reyndar man hann ekkert eftir fyrstu tæplega tveim vikunum því að skammtímaminnið var ekkert þann tíma.

Bæklunarlæknirinn hans hefur aldrei séð svona slæm beinbrot. Heila og taugaskurðlæknirinn er feginn að lófastór blæðing er utan við heilann. En Hallsteinn er í lífshættu alveg þar til búið er að fjarlægja blæðinguna því hún getur valdið bjúg á heila og þegar heilinn þrýstist niðurávið vegna plássleysis þá slekkur hann á öndunarstöðvunum og Hallsteinn deyr.

Aron heilalæknir gerir sitt kraftaverk. 

Við taka margir klukkutímar þar sem Bogi bæklunarlæknir gerir er að annarri hendinni, hin er talin geta gróið. Á gjörgæslunni gleðjumst við Magga stjúpa yfir því að hann getur hreyft hendurnar, taugaskaðinn ekki algjör.

Það líða nokkrir dagar í miklum sársauka og í ljós kemur að hin hendin mun ekki geta gróið, það þarf að setja mergnagla líka í hana. Önnur og löng aðgerð fyrir Hallstein.

Á áttunda degi fær Hallsteinn að fara heim, hann getur nefnilega gengið á klósettið sjálfur! Við taka erfiðir dagar heima, fyrir okkur bæði. Hallsteinn þjáist af miklum svima og er ekki fær að ganga nema með stuðningi. Mamma er á landinu sem betur fer og bjargar málunum hvað varðar unglingana okkar tvo.

Tíminn líður og í janúarbyrjun, eftir mikla verki í vinstri hendi, kemur í ljós að ekkert hefur gróið saman s.l. 5 mánuði. Háorkubroti má líkja við sviðna jörð eftir napalm sprengju, segir Bogi. Það er ekkert til að gróa saman. Þriðja aðgerðin fyrir Hallstein, tekur nokkra tíma og tveir einvaladrengir við stjórn, Bogi og Ingvar.

Enn er beðið og eftir mánaðarlegar heimsóknir til Boga fáum við loksins gleðifrétt í byrjun apríl. Vinstri brotin eru loksins farin að sýna gróanda.

Af hverju er ég að segja frá þessu öllu? Jú þessi litla frétt er bara rétt efsti toppurinn á ísjakanum sem Hallsteinn hefur þurft að kljást við.

Nú er ég búin að vera heima í 3 daga í flensuveiru og er að verða geðveik. Hef ekkert að gera. Halló halló. Hvað með Hallstein? Hann er búinn að vera heima í 270 daga.

Hallsteinn er ótrúlega vinamargur og það hefur því haldið geðheilsunni hans að vera í sambandi við þá en þetta fékk mann til að hugsa.

Hugsa hvað hann er mikil hetja að hafa lifað þetta tímabil af og haldið sönsum.

Hugsa um hverjir hafa reynst vinir í raun.

Hugsa um hvað ég er heppin að eiga hann að.

Hugsa um hvað einn maður getur valdið mikilli eyðileggingu vegna þess að hann er smiður í aðalstarfi, smiður í aukastarfi hjá öðrum verktaka og svo yfirdyravörður á skemmistað um helgar. Allt af því hann fór af stað vansvefta.

Hugsa um hvað Hallsteinn er heppinn að hafa lifað af.

Hjálmurinn bjargaði, það er ekki spurning. Fjarlægðin á spítalann bjargaði honum, það er ekki spurning.

Jákvæðni, einurð og líkamlega gott form, bjargaði Hallsteini, það er ekki spurning. Hann hjólaði alla daga ársins í vinnuna, minnst 20 km á dag.

En eftir 270 daga get ég ekki annað en útvarpað því á ykkar torg að Hallsteinn er algjör hetja, hvunndagshetja! 


mbl.is Alvarlega slasaður eftir reiðhjólaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Ef ég ætti hatt, myndi ég taka hann ofan fyrir ykkur báðum!

Óska ykkur velfarnaðar í lífsbaráttunni.

Soffía Sigurðardóttir, 16.4.2008 kl. 20:41

2 Smámynd: Sigga Hjólína

Takk fyrir :o)

Sigga Hjólína, 17.4.2008 kl. 09:39

3 Smámynd: Arnþór L. Arnarson

Já, þetta er ekkert grín! Hann á sannarlega hrós skilið fyrir að hrista þetta af sér.

Arnþór L. Arnarson, 19.4.2008 kl. 18:45

4 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hallsteinn er ótrúlega duglegur og hraustur drengur. Og það var gott að hann var með hjálminn. 

Ég hlakka til að fá hann til vinnu aftur.

Kveðja

Þórdís 

Þórdís Einarsdóttir, 19.4.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband