Glæpur í Grafarvogi

Sat inni í eldhúsi um miðjan dag í gær. Heima að vinna því ég var með verk í baki. Ekki spyrja afhverju ég var með verk í bakinu, ræði það kannski seinna... oh svo vandræðalegt. Ennívei... sat inni í eldhúsi um miðjan dag og tek eftir tveim mönnum labba í hægðum sínum framhjá húsinu mínu. Ekki alveg framhjá húsinu mínu því að annar þeirra tekur nokkur skref upp innkeyrsluna en hrekkur við þegar hann sér mig fyrir innan hekluðu gardínurnar (nei auðvitað heklaði ég þær ekki sjálf, heldur sveitakonur í Kína... ræðum það ekki frekar).

Ég fylgdist með mönnunum tveimur, krúnurökuðum á miðjum vetri, og sé þá labba í hægðum sínum áfram götuna og fyrir aftan næstu raðhúsalengju. Eftir smátíma hurfu þeir en komu svo aftur til baka. Þá var ég í miðju guðminngóðurhvaðégskammastmín símtali á hverfislögreglustöðina. 

-Já góðan dag.

-Góðan dag.

-Ég sá tvo grunsamlega menn labba framhjá.

-Já er það. Hvað voru þeir að gera.

-Skoða gömul dekk í innkeyrslunni. Ehemm. Þeir líta svolítið grunsamlega út.

-Hvernig þá?

-Tja, krúnurakaðir, labba í hægðum sínum að skoða allt við húsin, eru ekki héðan úr götunni. Bara svona grunsamlegir.

Og svona hélt samtalið áfram þar til ég var búin að lýsa því sem ég gat orðin frekar vandræðaleg með þetta lítilfjörlega tilefni. Á meðan löbbuðu mennirnir aftur framhjá glugganum mínum tilbaka út götuna.

Og hvað haldiði?!?!

Það var brotist inn til nágrannans í endaraðhúsinu. Rétt á eftir. Hverjir haldiði að séu grunaði?

Hvað lærði ég af þessu? Það er víst ekki svo vandræðalegt að hringja í lögguna með svona símtal. 

Reyndar sögðu þeir eftirá að það ætti alltaf að hringja í 112 þegar maður sæji grunsamlegar mannaferðir í nágrenninu. Þá kæmu þeir brunandi á staðinn. Sem gerðist því miður ekki í þessu tilfelli þar sem hverfisstöðin skráði þetta inn og sendi engan bíl.

Þá vitum við það. 


Í skólanum í skólanum

Ekki seinna vænna að fara í skólann á gamals aldri. Það er ótrúlega erfitt að vera í skóla með vinnu en einhvern veginn tekst það. Held ég hafi aldrei haft eins mikið að gera á ævinni. Meistaranám er strembið að maður tali ekki um þegar það er tekið með vinnu.

Í dag litu óvænt við mæðgur og yndislegt að fá þær í heimsókn. Þær erfði ég frá stjúpu og þær eru kærkomin viðbót. Þær voru að skila diskum sem Eiginmaðurinn hafði lánað eiginmanni hinnar. Diskarnir voru þættir með League of Gentlemen. Ég skiiiiil ekki þann húmor, Eiginmaðurinn grætur af hlátri yfir þeim. Ekki ég. Það minnir mig á þegar við horfðum á Spaugstofuna ókeypis á RÚV. Ég var alltaf jafn pirruð yfir því að þetta væri sýnt á besta útsendingartíma en Eiginmaðurinn alltaf jafn ánægður og hló og flissaði yfir Spaugstofunni.

Ég er að setja mig í startholurnar með að gefa fuglagreyjunum hér í Grafarvogi eitthvað að borða í vetur. Það verður eitthvað búðargert, ekki líklegt að ég né Eiginmaðurinn nenni að handgera fæðið í ár. Það er hins vegar svo yndislegt að sitja með (koffínlausan) kaffibollann á morgnana og horfa út um stofugluggann á silkitoppa, snjótittlinga, skógarþresti og aðra skemmtilega fugla fá sér að borða. Starrinn kemur náttúrulega líka. Það er nóg af þeim hér. Því miður ekki hægt að fara í fulgreinarálit eða vinsa þá frá. Það eina skemmtilega við þá er að sjá hvað þeir eru tillitssamir við hópinn sinn. Allir fá að borða saman. 

Að lokum... einn skólabrandari úr tíma í gær. Kennarinn var að tala um þríhyrning verkefnastjórnunar sem tengist tíma, gæðum og kostnaði. Sagði svo að í raun væri einn þátturinn í viðbót; Kröfur kaupandans. Þá væri þríhyrningurinn eiginlega ferhyrningur þrátt fyrir að alltaf væri talað um þríhyrning. Mér fannst þetta náttúrulega svo einstaklega "djúpt" að ég fór að flissa. Flissið varð síðan að niðurbældum hlátri og endaði á því að ég skaust út úr stofunni fram á gang til að komast yfir þetta áður en kennarinn fattaði að það væru ekki allir að hlusta á viskuperlurnar með andtakt. Þá vitiði það. Þríhyrningurinn er í raun ferhyrningur.

 

 


Öppdeit

Húsið selt einhverjum velmegandi. Flott og fín fjölskylda sem mun hugsa vel um það Smile.

Ég er byrjuð í skóla ásamt vinnu. Fíla það vel enn sem komið er... eigum eftir að sálgreina okkur Woundering æ ekki spyrja... part af programmet. Nei. Þetta er alvöru háskóli, ekkert mömbódjömbó.

Og horror of all horrors..... 

Ég er hætt að drekka kaffi með koffíni. 

Svo bregðast krosstré...

 


Dill á iði

Oooooooooooooooojjjjjjjjj. Varúð varúð, ekki fyrir viðkvæma!

Keypti lax í gær til að elda svona líka hollan mat. Skar flakið í hæfilega stóra bita og raðaði á bökunarplötuna. Greip í dillið úr kryddhillunni.

Var blaðrandi við mömmu á meðan ég skrúfaði lokið af og spurði, -Er dill ekki frábært með laxi?

-Jú, bara best! sagði mamma.

Skrúf..skrúf...

Strá... strá... Aaaaaaaaaaaaaaaaaaahhhhhh....Gaaaaaaaaaarrrrrrrrrrgggggggg! Ojjjjjjj!

Dillið hljóp í allar áttir ofan á og í kringum laxabitana. Pöddur í tugatali! (ókei kannski innan við tíu) hlupu um bökunarplötuna, ofaná og undir laxinn.

Krömdum nokkrar, öðrum sópað beint í ruslið með kryddinu og restinni var skolað af fiskstykkjunum. Úff, þvílíkt og annað eins.

Frú paranoja (ég) tók fram aðra bökunarplötu og setti glænýjan bökunarpappír á. Þvoði laxabitana í hel og raðaði á plötuna og skellti inní ofn. Hina plötuna setti ég líka inní ofn til að drepa allt sem hugsanlega gæti enn verið lifandi úr kryddstauknum.

Oj.

Þegar við mamma vorum aðeins farnar að róast í garginu og stappinu var litið á síðasta neysludag á kryddstauknum. Janúar. 2009. Þanebblenaþa.

Get ekki beðið eftir því að segja móðursystur þessa hryllingssögu því hún er sannfærð um að síðasti neysludagur alls sé af hinu illa þ.e.a.s. dagsetningar séu tilbúið prump, ákveðið af söluaðilum sem vilja selja meira og meira án tillits til þess hvort varan sé nothæf í hundrað ár eður ei. Þetta dill var ekki nothæft í hundrað ár, það get ég sagt ykkur. 


Dagurin í dag og gullpróteindrykkurinn

Jæja. Fór í ræktina. Einkaþjálfarinn er alveg með mig í átaki núna. -Þú ætlar að komast yfir 5vörðuháls ekki satt? -Jújú sagði ég milli samanbitinna tannanna.

Í lok æfingar fannst mér ég hafa púlað svo rækilega að ég átti nú skilið einn prótíndrykk. -Níuhundruð, sagði afgreiðslustúlkan. 900? Níuhundruð nýkrónur? Fyrir þann pening hefði ég nú getað keypt mér hamborgara og franskar, stalst ég til að hugsa en rétti fram kortið. Er svo duuuuuugleg! Er þó nokkuð viss um að í próteindrykknum hljóti að leynast gullflaga sem réttlætir verðið. Gull hlýtur að bæta meltinguna. Var það ekki svo gott í risotto-ið hér um árið?

Þaut út í bíl til að drífa mig af stað að sýna húsið í fimmtánda sinn eða álíka. Tyllti prótíngulldrykknum í glasahaldarann og bakkaði út úr stæðinu.

Kronsj.

Hvað haldiði?

Helv... prótíndrykkurinn hrundi á gólfið í bílnum og lá þar eins og nýuppköstuð æla. Deeeeemmmmmm.... Ég held ég hafi aldrei séð eins mikið eftir einum níuhundruð kalli. Ekki einu sinni á Skyline hryllingsræmunni. Það var nú ljóta og leiðinlega myndin.

Allaveganna. Húsið sýndum við enn einu sinni. Manni finnst nú kominn tími til að einhver fari að koma með tilboð? Við hjónin erum á fullu að sýna hús pabba og stjúpu sem við systkinin eigum saman. Húsið bíður eftir nýjum eigendum. Vona að það verði gott fólk. Ekki sama hver heldur áfram sögu hússins. En maður er nú farinn að hljóma svolítið eins og biluð plata. -Já, þeim fannst þetta svo skemmtilega kitsj klósett að það fékk að halda sér. Lóðin er svo vel hellulögð að hún er nánast viðhaldsfrí. Blasíblasíblaaaa...

En hugsum bara góðar hugsanir til allra sem koma að skoða. Einhvert paranna er það eina rétta í þetta hús. Og á böns of monní. 

Var að klára að þrífa gólfið í bílnum. Borgaði sig að gera það fyrir morgundaginn því að þá verð ég með erlendan viðskiptamann í skoðun milli starfsstöðva. Gat ekki látið hann halda að það hafi verið svona gaman um helgina! 

Árshátíðin var geggjuð og gríðarlegt stuð. Endaði á því að halda ræðu uppi á sviði. Neieieieieii, var ekki kominn á 9. glasið. Var bara nokkuð edrú og í bananastuði að afhenda bikar til starsmanna sem áttu það svo sannarlega skilið.

Óverandát. 

 


Saumóspjall og aðrar sögur

Jamm og já. Nú er bara skemmtilegt hjá mér.

Saumó á fimmtudaginn. Saumó hjá H þýðir gúrmei-par-exellans og ekki klikkaði hún frekar en fyrri daginn. Forréttur var annars vegar gæsalifrarkæfa og og hins vegar tígrisrækjur á bruscetta. Aðalrréttur var svartfugl ásamt meðlæti og frönsk súkkulaðikaka í eftirrétt. Namminamminamm. 

Mikið var nú skrafað og hlegið. Við L pissuðum næstum í okkur af hlátri við upprifjun mína af hræðilegu hjálpartækjasögunni.

Svo er árshátíð í kvöld. Jibbí jibbí ðöööö. Ég þarf að vera pen alveg þangað til við erum búin að afhenda verðlaunin. Þá skal sko djammað! En ég sleppi nú ekki alveg að fá mér því að í meiköppinu í dag mæti ég með eina freyðivín og í fyrirpartíinu verður dreypt á örlitlu hvítvíni. Vona að forstjórinn þurfi ekki að halda mér uppi á sviðinu. Hehehhe....

Hræðilega hjálpartækjasagan er þannig að þegar Elsti sonur var þriggja ára og Yngri sonur nokkra mánaða þá fór ég í heimsókn með þá til frænku Eiginmannsins. Hún átti eina fjögurra ára. Við vorum báðar heimavinnandi og langaði að hittast oftar en í þessum hefðbundnu fjölskylduboðum.

Við sátum saman inni í stofu ásamt Yngri Son á meðan Eldri Sonur og dóttir Frænku léku sér voða góð saman. Við  vorum bara í miðju spjalli þegar börnin koma labbandi inn í stofu úr svefnherberginu til okkar. Þetta var lítil íbúð og leikföng dótturinnar voru inni í svefnherbergi. 

-Mamma, er ég ekki fínn? Er ég ekki voða fínn? spyr Eldri Sonur og sú litla gengur skælbrosandi á eftir honum og hjálpar honum með hárgreiðsluleikinn. Eldri Sonur rúllar fram og til baka eftir hárinu þessum fína og skærgræna víbrator af stærstu gerð.

Það mátti heyra saumnál detta. Reyndar heyrðist bara lágt hummið í víbratornum... vrrrrrrrrrr......

Við Frænka þekktumst ekki mikið. Ég horfði á hana og hugsaði með mér að þetta væri vandræðalegasta stund lífs míns. Gat ekki hlegið, varð að halda andlitinu og ekki gerði Frænkan mér það auðvelt. Eldrauð í framan þreif hún víbratorinn af börnunum og fór með hann inn í svefnherbergið.

Kom svo fram og sagði, -Guð, hann var einhvers staðar inní svefnherbergisskáp. Eh... Nýi kærastinn gaf mér þetta bara í gríni. Guð, ég bara vissi ekki að það væru batterí í honum.

Þá átti ég nú erfitt með að springa ekki úr hlátri. 

Það þarf ekki að segja frá því að kaffispjallið varð ansi stirt eftir hárgreiðsluleik barnanna, ég flýtti mér fljótlega heim með drengina og við hittumst aldrei aftur í kaffi. 

Á nú ekki von á svona víbratormómentum á árshátíðinni en það er bara aldrei að vita Wink


Þú ert svo sæt og silfurlituð

Ljóð í tilefni þriðjudagsins:

Ó þú.
Þú ert sú eina sem ég á.
Þú ert svo sæt og silfurlituð.
Mikið ertu létt og fyrirferðarlítil.
Elsku litla afmælisgjöfin mín.
Frá karlpeningnum mínum.
Krúttípúttí makkbúkkpró.
Þú ert best.
Endir.


Lalalala...laugardagur

Í dag var farið snemma á fætur og fuglunum gefinn sinn morgunskammtur. Aumingjans greyin kúldruðust úti í garð í heiðarlegri tilraun að borða morgunmatinn sinn. Brauð, múslí, krítversk ólívuolía ásamt dásamlegu epli. Namm... ef maður er þröstur, starri eða smærri fugl.

Ég fékk með yndislegan hafragraut úr Kosti sem einhverjir Kvekarar hafa sett í umbúðir. Namminamm, hafragrautur með trönuberjum, kanil og möndluflögum. Slurp. 

Að morgunverði loknum var nú brunað af stað að skutlast með Eldri Syni og Eiginmanni í Smáralind að versla skó númer... haldiðykkurfast... númer 48. Nei engin prentvilla, númer fjörutíuogátta. Hann er eins og L þessi elska. 1,88 og skór númer 48. Síðan var næsta skutl í Hafnafjörð þar sem E.S. hélt áfram á námskeiðinu þar sem hann lærir að búa til varnir fyrir Víkingabardagana sem hann stundar tvisvar í viku.

Þegar við vorum í Smáralind voru einhverjar elskur að bjóða frítt kaffi, cappucino eða latte. Það tók okkur dágóðastund að átta okkur á því að þetta var ókeypis. Guð hvað maður er orðinn vanur því að þurfa að veðsetja eitt barnið sitt til að kaupa kaffibolla.

Þvínæst fórum við Eiginmaður í sýningarferð um Náttúrugripasafnið. Urðum næstum úti á leið frá bílastæði að safni. Þetta var svakalega skrýtin ferð. Inní safnið brunuðum við eins og fimm hundruð öðrum hafði dottið í hug að gera. Röngluðumst um rangala milli hæða og nenntum ekki að kíkja inn í þennan eða hinn kústaskápinn þar sem steinar og vatnssýni voru geymd. Steypireiðurinn var þvílík svekkja. Reyndar horfði Eiginmaðurinn á mig vorkunnaraugum og sagði, -Datt þér virkilega í hug að það væri alvöru uppstoppaður Steypireiður hér á 4. hæðinni?

Já. Og hvað með það? 

Hápunktur heimsóknarinnar í safninu var að sjá þurrkaða könguló sem flæktist með Chiquita banönum í matvöruverslun Hraunbæjar fyrir 20 árum síðan. Semsagt, var frekar svekkt yfir þessu safni. Er kannski ósanngjarnt að bera allt saman við Natural History Museum í London? Líklega.

Plataði Eiginmanninn með mér á bókasafnið í Grafarvogi. Þvílík gullnáma. Ég var bara búin að gleyma því hvað það er huggulegt, þægilegt og bara með yndislega mikið af skemmtilegum bókum. Gekk út með 15 bækur sem ég ætla að ná að lesa innan 21 dags. Yeah Right, en var ég ekki að tala um einhvern tímann hvað það væri gott að hafa markmið?

Eiginmaðurinn fór á árshátíð Stjána Bláa (veiðiklúbburinn). Reyndar spurði Yngri Sonur hvort það væri þá spínat í matinn. Hahaha!

Ekkert spínat hjá okkur hinum en ég og Unglingarnir fengum okkar sko geðveikt flotta hamborgara í kvöldmatinn. Engar franskar, allir í ræktinni og nýtt mataræði í gangi. 

Eða sko hjá hinum. Í dag er sko lalalalalaugardagur og mín skrapp í Nammilandið. Uss... ekki segja. 

 

 


Ó þú fagri föstudagur

Í morgun skreið ég með gleðibros í ræktina kl. 07:00.

moiaerobics.jpg

 

Ég skammaðist mín pínu fyrir gallann minn, hann er svo eitthvað...ööö...hvítur...?

Í kringum mig var svefndrukkið fólk á brettum og í tækjum.

Guðsélof að þessi tími er bara tvisvar í mánuði.

 

 

 

Í kvöld er pizza, rauðvín (eða ekki) og kærkomnir gestir.

Ó þú fagri föstudagur.


Hamingja í fram- og afturheila

Cutiepies

Fórum í bústað nýlega. Svo mikil hamingja að það hálfa væri meira en nóg.

Á meðan ákvað einn unglingurinn að fara í partí með fullt af bjór. Draga vin sinn með sér heim, þennan sem gat ekki farið heim vegna ölvunar. Sófinn minn var útældur og búið var að þrífa hann hressilega þegar við komum heim. Samt gleymdist að gá undir sófann þar sem stór ælupollur hafði náð að þorna í parketinu. Grrr. Sófinn var þrifinn svo hressilega að nú er einn partur af sófanum vooooðalega hreinn. Grrrr.

kústína

En... ef við tökum einbeittan alkóhólvilja ákveðinna unglinga hér til hliðar þá...

er ég er búin að komast að því að það er kominn tími til að breyta um hugarfar og leyfa gleðinni að flæða inn. Það er búið að syrgja nóg þá sem eru farnir og velta sér uppúr örlagadísunum. Þetta er komið gott.

Ég hef ákveðið að hreinsa út það gamla og hleypa nýju og skemmtilegu að. Bara sleppa tökunum á því sem er skeð.

Það var tilviljun að ég fór á fyrirlestur hjá Helgu Guðrúnu, læfkótsj með meiru sem er staðsett í Dubaí. Hún sagði eitthvað sem festist í huga mér.

Framheilinn er það sem við notum til að hugsa hvernig við bregðumst við. Restin af heilanum byggir á því sem við höfum lært (í framheila) sem rétt viðbrögð við aðstæðum og dregur þau viðbrögð fram þegar við á. 

Helga Guðrún var reyndar að tala um óhollustu og súkkulaði, tenginguna milli ánægju og súkkulaðis en ég fékk svona a-ha móment, hugljómun.

Minn aftari heili hefur verið fastur í því að gráta orðinn hlut, fólk sem ég hef misst, aðstæður sem hafa verið utan minna áhrifa, veikindi sem ég ræð ekkert við. Ég hef verið með áfasta skeifu framan í mér. Hver dagur hefur farið í að rifja upp sjúkdóma, dagana fyrir andlátin, stöðug leitun í það sem dregur upp sorgina í hugann.

Það má segja að eftir þennan fyrirlestur er ég öll í því að búa til "nýjar brautir" í aftari heilanum. Brautir gleðinnar. Það skiptir ekki máli þótt hér hugsi lesandinn, noh... bara svona mömbódjömbó... ef þetta virkar fyrir mig þá er það ók, þér má finnast þetta bara enn ein sýran.

Ég fékk svo yndislegt hláturskast með Eldri Syni í dag að ég pissaði næstum á mig. Mikið er hláturinn hressandi! Meira svona. 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband