Well well

Ef það er eitthvað sem ég hef lært undanfarin ár þá er það að meira segja best gerðu áætlanirnar fara úrskeiðis. Í minni fjölskyldu eru þær svona bara slump-áætlanir en þær fara líka úrskeiðis.

Hvaða áætlanir fóru úrskeiðis? Jaaaah... Til dæmis...

Spánarferðin okkar. Fórum öll fjölskyldan til Spánar. Taka það rólega í viku og síðan leigja bíl og skoða ýmislegt og heimsækja skemmtigarða.

Well, well well. Það var svo sannarlega tekið rólega á því fyrri vikuna. En þá seinni? Tjaaa. Hún fór í "De Mexican Virus". Já þú last það rétt. Í svínaflensuna. H1N1.

Okkar útgáfa var: Hár hiti + Miklir beinverkir + smá hæsi eða særindi í hálsi + NIÐURGANGUR DAUÐANS.

Hvað er hún að væla? Tja, settu þig í eftirfarandi spor.

1 klósett + 5 manns með niðurgang (sá 6. slapp við hann) + lítil hótelíbúð + 35 stiga hiti.

Einmitt.

Heimkoman í Leifsstöð. Ég og eiginmaðurinn pökkuðum niður örfáum bjórdósum. Keyptum samt fullan skammt í fríhafnarversluninni.

Hvað gerðist þegar við gengum fyrir hornið á leið okkar framhjá Tollurunum?

Jú. Víst.

-Viljiði gjörasvovel að setja allar töskurnar ykkar í gegnum tækið.

Nokkrir Tollarar og við plús strákarnir. Allir aðrir rúlluðu framhjá með sitt.

-Hver á þessa tösku? spurði Tollarinn. Ég mundi eftir því að hafa pakkað bjórdósum í þessa tösku. Úps.

-Ég, sagði Yngsti Sonur og ég fölnaði. Ef það var hægt að fölna meira því ég var lasin á leið heim. Eiginmaðurinn var hræðilega lasinn.

-Ég pakkaði í töskuna, sagði ég, -ég pakkaði niður fyrir alla. Tollvörðurinn var grimmur á svip og sagði, -Hvað eru margir 20 ára og eldri hér?.

-Bara við hjónin, svaraði ég og sagði strákunum að setjast í sætin þarna við. Þeir voru líka slappir.

Jæja, þetta endaði með því að Tollarinn sagði að við slyppum með þessar örfáu dósir.

-Það er meira hér, heyrðist frá öðrum Tollara bak við gegnumlýsingartækið. Æ, já. Við gleymdum einni rauðvínsflösku sem ekki hafði gefist færi á að dreypa á vegna veikinda.

-Og meira í þessari. Hann var svo duglegur, Tollarinn bak við gegnumlýsingartækið. Hann fann tvær bjórflöskur. Tegund sem Eiginmaðurinn ætlaði að smakka en gat ekki vegna veikinda.

Tollarinn tók vínflöskuna úr annarri töskunni og bjórflöskurnar tvær úr hinni og sagðist gera smyglið upptækt.

Ég snéri mér við og horfði í augun á hverjum og einum af okkar fjórum unglingsstrákum og sagði hægt og yfirvegað, -Strákar. Hvorki ég né eiginmaðurinn höfum nokkurn tímann smyglað inn áfengi áður. Og munum aldrei gera það. Við höfum verið svo veik að við föttuðum ekki hverju var verið að pakka niður... Hóst. Þið skiljið lesendur góðir. Það skiptir öllu máli að vera góð fyrirmynd. Ehemm. Hóst.

Aftur heyrðist í vini okkar Tollaranum bak við gegnumlýsingartækið og nú var röddin komin í hæstu undrunar-hæðir. -Það er meira hér! Í bakpokanum.

Nú urðum við öll eitt spurningarmerki. Hvernig var þetta hægt? Hver hafði pakkað niður einhverju áfengi sem enginn vissi af?

Bakpokinn var snarlega opnaður og Yngsti Bróðir togaði upp nokkrar samhangandi jógúrt (æ þessar spænsku sem eru voða góðar fyrir fólk með enga lyst).

-Þetta er bara jógúrt, sagði Yngsti Bróðir.

Við blésum öll frá okkur. Hjúkket! Þetta var bara búið. Þá var bara að tína saman allt dótið og koma sér út.

Það gerðum við og í því sem við vorum tilbúin að koma okkur af stað kom aðal-Tollarinn til okkar, þessi sem spurði um töskur og aldur... og sagði, -Hérna. Þið megið taka þetta.

Hann rétti mér vínflöskuna og bjórflöskurnar tvær. -Það er laugardagur og við erum í góðu skapi.

Ég elska Tollarana í Leifsstöð.

Seinna um kvöldið fór ég að leita að bókinni sem ég var að lesa í flugvélinni og uppgötvaði þá að einn bakpokinn hafði týnst. Leitaði hátt og lágt. Enginn blár sundpoki. Ó Nei! Í honum var ekki bara bókin mín heldur líka nýju eyrnalokkarnir og hálsmenið. Swarowski. Ég varð ansi leið því að líklegasta skýringin væri að hann hefði dottið úr skottinu þegar við hlóðum inn í bílana. Ég hafði því miður ekki mikla trú á að Heiðarlega Fjölskyldan hefði fundið pokann. Jæja. Eiginmaðurinn er nú stundum svolítið skýr. Ég vakti hann til að þusa um bakpokann og þá umlaði hann, -Ég man ekki eftir honum eftir að við fórum frá Tollurunum.

Ég hringdi í Tollarana. Jess! Pokinn þar. Guðminngóður hvað við vorum út úr korti. Að gleyma einum poka. Með skartinu mínu! Djísess. Jæja það fór vel að lokum. Pokinn sóttur næsta dag.

Meira af okkur síðar...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Úff, úff, úff.  Ég ætla rétt að vona að pestin sem ég fékk fyrir tveimur vikum hafi verið þessi vírus.  En ég er samt efins, af því ég fór ekki yfir 38 stiga hita.  Að öðru leiti var þetta voða influensulegt, beinverkir, hausverkur, ljósfælni og hálssærindi.  Veit til þess að sumir hafi fengið mjög væg einkenni á meðan aðrir hafi verið nánast við dauðans dyr.  Ja, svona eins og þú ert að lýsa.

Ég hef aðeins einu sinni tekið aukalega áfengi með mér, en þá keypti ég ouzo á Krít, og það var í mjög fallegri karöflu, sem leit út eins og olíuflaska.  Og í fyrsta sinn í mörg ár var skoðað hjá mér.  Tollararnir renndu öllu í gegn, og ég svitnaði, sjitt, nú verð ég tekin og varð svo hvumsa þegar tollarinn "Takk, þú mátt fara" að ég var næstum búin að stynja upp "ætlaru ekki að taka úsóið???".

Þeir hafa séð hvað þið voruð flensuleg og ekki kunnað við annað en gleðja ykkur svolítið, blessaðir tollararnir.

Hjóla-Hrönn, 1.9.2009 kl. 17:32

2 Smámynd: Sigga Hjólína

Já, fannst þér ouzoið á Krít ekki gott? -Medicine Medicine, gargaði alltaf einn kall á veitingastað sem okkur fannst gott að koma á um leið og hann skellti á borðið einni ískaldri ouzo-karöflu. Þú ert örugglega sloppin (krossa putta og allt það). Við fengum sko"Spánska" afbrigðið, þetta með fínu steinsmugunni.

Sigga Hjólína, 1.9.2009 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband