Magga mín

Einhverjir hafa tekið eftir að á þessu bloggi mínu hef ég leitast við að leggjast ekki í eymd og volæði heldur horfa á það jákvæða í lífinu. Það er bara ég og mín afstaða til bloggsins hvað mig varðar.

Í dag geri ég undantekningu á því.

mo1.jpgUndanfarna mánuði hefur ótrúleg kona, kjarnakona, háð baráttu. Ég sagði ykkur frá henni Möggu hér og hinu einstaka Amsterdam ævintýri okkar þegar við vorum á leið á ægilega merkilegt læknaþing á vegum samtaka undir regnhlíf Sameinuðu Þjóðanna. Ekki á vegum neins lyfjafyrirtækis heldur á vegum Möggu.

Magga var skurðlæknir. Fyrsta konan sem starfaði sem slíkur á Íslandi. Hún var prófessor við HÍ, deildarstjóri skurðdeildar LSH, átti "stól" eftir sérnám sitt í Yale, tengdist bestu læknum heims og átti ótrúlega marga þeirra sem vini. Hún var ofboðslega klár kona og alveg svakalega skemmtileg. Einstök og gegnheil.

Þessari kjarnakonu, Möggu, tengist ég þannig að hún giftist föður mínum.

Magga var stjúpmamma mín en þar sem ekki voru nema 9 ár á milli okkar vorum við mjög góðar vinkonur. Hún var alveg frábær mamma drengjanna sinna og tókst margt... sem var talið fram að því að hún kynntist honum... hið ómögulega... hvað pabba minn varðaði. Pabbi fór að stunda gönguskíði, göngur, ýmislegt tengt útivist og hreyfingu... það þekktist ekki áður en hann kynntist Möggu! Það var ekki bara hann sem naut góðs af þessum drifkrafti Möggu. Ég naut líka góðs af því. Hún dreif mig og mína fjölskyldu í göngur, sund, útivist af ýmsu tagi, menningu og bara allt sem auðgaði anda, líkama og sál. Magga lagði mikla rækt við fjölskylduna og við nutum svo sannarlega góðs af því.

Margt er lagt á suma.

Magga og pabbi eignuðust dreng árið 1991 og tvíbura árið 1993. Mistök í fæðingu ollu því að þau misstu annan tvíburann, 6 vikna gamlan. Magga greindist með illvígt brjóstakrabbamein árið 1999. Hún vann bug á því og eftir 5 ára hormónakúr var hún frjáls. Frelsið varði fram til ársins 2006, þá greindist hún aftur með krabbamein. Hún vann bug á því. Pabbi greindist með krabbamein í byrjun sumars 2007 og dó í lok sumars, 3 mánuðum síðar. Magga greindist með krabbamein enn á ný í byrjun ársins 2008. Framhald af brjóstakrabbameininu. Komið í bein og lifur. Breiddi úr sér þrátt fyrir mjög erfiðar lyfjameðferðir.

Magga dó í morgun.

Nú lifa foreldra sína tveir unglingar, hálfbræður mínir. Fjölskyldan safnast öll kringum þá og stendur þétt við bak þeirra því við gerum allt sem hægt er til að gera þeim lífið bærilegra. Þeir munu verða undir verndarvæng ömmu sinnar og afa sem og mínum með dyggum stuðningi eiginmanns, sona og stórfjölskyldu. 

Ég tek mér því bloggfrí á meðan sorgin er svona sár. Á meðan allt ferlið gengur yfir. Verið blessuð í bili.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég samhryggist þér innilega.

Gurrí (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Elsku kæra vinkona.

Innilegar samúðaróskir

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 10.1.2009 kl. 00:14

3 identicon

Elsku Sigga og fjölskylda

Innilegustu samúðarkveðjur... Systa

Systa (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 02:08

4 Smámynd: Hjóla-Hrönn

  Innilegar samúðarkveðjur, það er alveg ótrúlegt hvað er lagt á sumar fjölskyldur.  (((((knús)))))

Hjóla-Hrönn, 10.1.2009 kl. 12:57

5 identicon

Elsku Sigga og fjölskylda

 Innilegustu samúðarkveðjur... Elín Rósa

Elín Rósa (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 11:37

6 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Einlægar samúðarkveðjur frá bloggvini

Guðrún Þorleifs, 12.1.2009 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband