Holiday Heart... My Dicky Ticker...
26.10.2008 | 14:08
Látum okkur nú sjá. Ég datt í það. Allsvakalega. Vinnan bauð í partý og ég var til í að lyfta glasi eða tveim... Er ekki þekkt fyrir að detta í það en ég veit ekki hvað greip mig... einhver púki eða djammfílingur. Allaveganna þá var bara eins og ég ætti engan "off" takka þetta kvöld. Hvítvínið rann ljúft niður.
Hvað gerðist? Jú, ég hlustaði samúðarfull á einhvern verktaka sem missti konuna sína fyrir hálfum mánuði...fannst hann furðu rólegur þegar hann ræddi þetta svo ég veit ekki hvort þetta var einhver lygi eður ei. Ég dansaði stíft við vinnufélagana... Ég hló og skemmti mér alveg konunglega. Það verða allir svo fyndnir á sjötta glasi ekki satt? Átti nokkra trúnó við vinkonur á vinnustaðnum... Veistu hvað mér finnst þú æðisleg... fílingurinn. Ennívei, á maður ekki að vera heiðarlegur í blogginu?
Allt saklaust og meiddi engan.
Svo kom morguninn ljúfur og fagur. En ég sá hann ekki. Ég hékk yfir klósettinu og skúringafötunni. Það var mikið að gera hjá mér við að skila öllu þessu víni aftur til baka.
Á slaginu 11 gerðist það. Hjartað hrökk úr takti. Fiðrildaher tók sér bólfestu í brjóstkassanum og ég vissi að ég var komin úr takti. Taktleysið leið ekki hjá og ég hringdi því í lækni og sú stefndi mér niður á bráðamóttöku. Ég mætti og var sett í línurit.
-Það eru til tvær algengar tegundir af taktleysi, sagði Ardís hjúkrunarfræðingur, -óregluleg regla og regluleg óregla.
Ég var með hvorugt. Ég var nefnilega með óreglulega óreglu. Einmitt. Ef það er eitthvað óvenjulegt eða öðruvísi þá er það merkt mér. Á fínu máli heitir þetta
Atrilala Atrial Fibrilation (AF). AF í bland við alkóhól = Holiday Heart.
Holiday Heart... þanebblega þa...
Fyrir þá sem nenna að skilja fræðilega partinn þá er engin P bylgja til staðar í svona ástandi. Efri hólf hjartans slá óreglulega því rafboðin eru í rugli.
Hvað var gert? Jú, eftir nokkrar klukkustundir var ljóst að ég var ekki að greiða úr þessu sjálf og því fékk ég eitthvað lyf. Það virkaði ekki. Þá fékk ég að fara heim í leyfi yfir nóttina. Mæting í fyrramálið í rafstuð. Jess, bara stuð. Nema mér tækist að hrökkva í taktinn fyrir þann tíma.
Á slaginu kl. 23.00 tók ég eftir því að allt í einu var komin ró yfir hjartað. Ekkert brokk eða fiðrildi. Allt var komið í lag. Þegar ég mætti í morgun var tekið línurit til að staðfesta að þetta væri liðið hjá. Mjög ánægjulegt að heyra að P bylgjan væri mætt á sinn stað .
Semsagt kæru vinir. Ég drekk ekki alkóhól í bráð... ef ég drekk það nokkurn tímann aftur.
Það er algjör óþarfi að bjóða hættunni heim. Finnst ykkur það ekki? Ef ég fæ svona Holiday Heart aftur þá má ekki líða meira en sólarhringur án þess að eitthvað verði gert því þá fær maður allskonar blóðtappa og læti. Nenni því nú ekki. Lífið er of dýrmætt til þess.
Nú er eigimaðurinn náttúrulega kominn með bílstjóra fyrir lífstíð þegar glatt er á hjalla. Hann er ekki enn búinn að fatta það. Hann er bara svo feginn að ég drapst ekki .
Athugasemdir
Kæra frænka,
Þetta var aldeilis sögulegt "geim" hjá þér. Ég man ekki betur en að pabbi þinn hafi lent í svipuðu f. allmörgum árum þegar hann bjó í USA, ekki rétt?Verst að þú býrð ekki nær mér því ég gæti vel geta hugsað mér að hafa bílstjóra stöku sinnum! Kær kveðja, Magga S.
Margrét Sig. (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 17:35
Jú einmitt! Hann fékk þetta fimm sinnum áður en hann fór að læra af reynslunni
![](/js/tiny_mce/plugins/emotions/images/LoL.png)
Sigga Hjólína, 26.10.2008 kl. 20:33
He he, það er fínt að fá sprelllifandi bílstjóra![](/js/tiny_mce/plugins/emotions/images/Smile.png)
steinimagg, 26.10.2008 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.