Glæpur í Grafarvogi
25.10.2011 | 21:46
Sat inni í eldhúsi um miðjan dag í gær. Heima að vinna því ég var með verk í baki. Ekki spyrja afhverju ég var með verk í bakinu, ræði það kannski seinna... oh svo vandræðalegt. Ennívei... sat inni í eldhúsi um miðjan dag og tek eftir tveim mönnum labba í hægðum sínum framhjá húsinu mínu. Ekki alveg framhjá húsinu mínu því að annar þeirra tekur nokkur skref upp innkeyrsluna en hrekkur við þegar hann sér mig fyrir innan hekluðu gardínurnar (nei auðvitað heklaði ég þær ekki sjálf, heldur sveitakonur í Kína... ræðum það ekki frekar).
Ég fylgdist með mönnunum tveimur, krúnurökuðum á miðjum vetri, og sé þá labba í hægðum sínum áfram götuna og fyrir aftan næstu raðhúsalengju. Eftir smátíma hurfu þeir en komu svo aftur til baka. Þá var ég í miðju guðminngóðurhvaðégskammastmín símtali á hverfislögreglustöðina.
-Já góðan dag.
-Góðan dag.
-Ég sá tvo grunsamlega menn labba framhjá.
-Já er það. Hvað voru þeir að gera.
-Skoða gömul dekk í innkeyrslunni. Ehemm. Þeir líta svolítið grunsamlega út.
-Hvernig þá?
-Tja, krúnurakaðir, labba í hægðum sínum að skoða allt við húsin, eru ekki héðan úr götunni. Bara svona grunsamlegir.
Og svona hélt samtalið áfram þar til ég var búin að lýsa því sem ég gat orðin frekar vandræðaleg með þetta lítilfjörlega tilefni. Á meðan löbbuðu mennirnir aftur framhjá glugganum mínum tilbaka út götuna.
Og hvað haldiði?!?!
Það var brotist inn til nágrannans í endaraðhúsinu. Rétt á eftir. Hverjir haldiði að séu grunaði?
Hvað lærði ég af þessu? Það er víst ekki svo vandræðalegt að hringja í lögguna með svona símtal.
Reyndar sögðu þeir eftirá að það ætti alltaf að hringja í 112 þegar maður sæji grunsamlegar mannaferðir í nágrenninu. Þá kæmu þeir brunandi á staðinn. Sem gerðist því miður ekki í þessu tilfelli þar sem hverfisstöðin skráði þetta inn og sendi engan bíl.
Þá vitum við það.
Athugasemdir
Væna- eg veit það! Eg veit lika að það að hringja í 112 með dauðvona ungling í fanginu hefur ekki altaf tilgang- þeir vilja tala við LÆKNI ! EÐA ÞEGAR BROTIST ER INN HJÁ ÞER OG GLÆPAMAÐURINN RÍFUR AF ÞER SÍMANN OG SEGIR - HÚN ER BARA EITTHVAÐ ÆST --ÞEIR KOMA EKKKKI !!!!
Erla Magna Alexandersdóttir, 25.10.2011 kl. 22:13
Almátttugur!
Sigga Hjólína, 25.10.2011 kl. 23:56
Úff, Erla, þetta er rosalegt. Mjög mismunandi viðbrögð sem ég hef fengið hjá neyðarlínunni. Ég var einu sinni veik, með influensu (búin að fá það staðfest hjá lækni í upphafi veikinda) og 4 dögum seinna hafði ég ekki getað borðað neitt og hélt ekki einu sinni niðri vatni. Var ein heima með 2 ung börn. Hringdi í neyðarlínuna þegar ég komst ekki lengur fram úr rúminu, sá allt svart og börnin búin að lifa á vatni og frosnum pylsybrauðum í 2 daga. "Þú átt að hringja í lækni". Ég sagðist efast um að vera enn á lífi þegar Læknavaktin myndi loks senda mér lækni heim. "Og ertu ekki með tvö börn, hvað ætlaru að gera við þau?" Ja, það er þinn höfuðverkur ef ég ligg hér dauð í rúminu, pylsubrauðin eru að verða búin. Svo komu þeir nú blessaðir og skutluðu mér upp á spítala, þar var ég lögð inn í 2 daga með næringu í æð, ógleðistillandi, morfín og huggulegheit. Bróðir minn kom og passaði grislingana á meðan og gaf þeim að eta. Eina góða sem kom út úr þessum veikindum er að ég missti 7 kíló, og þau komu ekki aftur!
Við lentum líka í þessu í hverfinu okkar, þá hljóp minn fyrrverandi út og elti liðið, en þeir brunuðu burt þegar þeir sáu að þeir hefðu verið spottaðir. Þeir voru einmitt tveir saman, löbbuðu rólega og upp að hverju einasta húsi. Mig grunaði raunar að þetta væru útlendingar sem vildu nást, atvinnulausir, kaldir og svangir og búnir að heyra af því að íslensku fangelsin væru á við 3ja stjörnu hótel.
Hjóla-Hrönn, 26.10.2011 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.