Guðsélof...að þetta var sú síðasta!
9.2.2010 | 17:45
Varúð! Innihald er neikvætt og pirrað.
Vinir nær og fjær.
Prísið ykkur sæl með þá vitneskju innanborðs að síðastliðið laugardagskvöld var síðasta sýningin á Michael Jackson Tribute sýningunni á Broadway.
Hluti af stemningunni í kringum hvaða sýningu sem er verður að myndast af því að horfa á sviðið og umgjörðina þar.
Á þessari sýningu sem hófst klukkan 22 átti að koma manni í MJ fíling. Hvernig er það hægt? Með því að líkja sem mest eftir listamanninum og skapa stemningu?
Forrétturinn kom á borðið kl. 19. Rækjusúpa.
Sviðið var bara eitthvað gólf. Þetta er ferningur í miðjum salnum. Ekkert, ekkert, ekkert sem gerir það eitthvað spes.
Jú gott ef það sást ekki einn hvítur skermur eða tveir sem dansarar stóðu í þegar eitt lagið var sungið. En annars semsagt ekkert, ekkert, ekkert, nema söngvararnir og dansararnir til að skapa stemninguna með lögunum.
Einn af söngvurunum heitir Edgar Smári. Ég býst við að hann teljist seint vera kynþokkafullur... að minnsta kosti miðað við þessa sýningu og ég vorkenndi honum bara. Honum fannst greinilega mjöööög óþægilegt að standa á sviði, eiga að vera sexí og syngja lög eins og "Who's baaaad?!" Í millispilaköflunum snéri hann rassi í áhorfendur, horfði á hljómsveitina semsagt og sló taktinn með hnénu. Újé.
Aðalrétturinn kom á borðið klukkan 20:30. Lambalund.
Hinn íslenski söngvarinn, Arnar að nafni, var með MJ lúkkið á hreinu. Arnar er pínuþybbinn (tja við hliðina á Edgar Smára) en allt í lagi með það. Hann fór bara í allt of stuttar og þröngar buxur. Var í geðveikt þykkum, hvítum körfuboltasokkum og krumpaði þá um ökklana. Var með eitt hvítt leggings á handleggnum... hitt hafði greinilega dottið niður í buxurnar hans að framan. Tölum ekki meira um það. Súpersexy er ekki eitt af því sem mér datt í hug þegar ég horfði á hann.
Dansdömurnar voru ekki á góðum launum í þessari sýningu. Það var ekki eitt heilt par af sokkabuxum að sjá. Gat hér og þar. Við erum ekki að tala um þær sem voru notaðar í Thriller atriðinu. Þær voru aldrei í takt og þetta var bara pínlegt að horfa á.
Enginn karlmaður dansaði í þessu sjóvi. Ok, síðan hvenær er nóg að setja á sig skeifu til að áhorfendum finnist kvenkynsdansari vera karlkynsdansari? Nei bara spyr.
Eftirrétturinn kom kl. 21:45. Ísflís, kökuflís, ostakökuflís.
Thriller atriðið. Eigum við að ræða það?
Það er ekki nóg að veifa beinstífum handleggjum til að salnum finnist hann horfa á kirkjugarð, uppvakninga og almennt lifa sig inn í Thriller.
Það þarf að vera til staðar...ummm... eitthvað eins og.... einn eða tveir legsteinar?
Fólk málað eins og það sé uppvakningar? Draugalegt umhverfi? Ekki bara reykslæða á sviðinu, stífir handleggir og allir bara eins og þeir séu á leiðinni út í búð (í venjulegum fötum og ómálað).
Ég meina, fólk er að kaupa sig inn á eitthvað flott.
Það eina sem var gott við þessa sýningu var unglingsstelpa sem söng eins og MJ á 9. ári og útlenski dökki söngvarinn sem tók eitt moonwalk spor og söng alveg þokkalega miðað við það að vera MJ eftirherma á Íslandi. Spáið í því hvað sýningin var léleg þegar maður grætur af gleði yfir einu dansspori.
En þegar svona ung stelpa syngur í ástardúett með téðum útlenskum söngvara þá er það ekkert annað en pínlegt þegar þau standa beinstíf við hlið hvors annars og syngja "I just can't stop loving you" án þess að líta á hvort annað fyrr en á síðustu tónunum. Úff.
Það ætti að rasskella sýningarstjórann, dansstjórann og þann sem datt þetta rugl í hug.
Óverandát.
Athugasemdir
100 uppvakningar hefðu ekki getað hrakið mig inn á þessa sýningu. Það er þó gott að þið skemmtuð ykkur vel *glott*
Hjóla-Hrönn, 9.2.2010 kl. 22:23
Fliss. Já það er ótrúlegt hvað maður leggur á sig fyrir boðsmiða .
Sigga Hjólína, 9.2.2010 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.