Morgunmúffur Hjólínu
13.1.2010 | 08:17
Í tilefni af megrun minni hef ég ákveðið að deila með ykkur heimsins bestu morgunmúffum. Tilgangurinn er að fita ykkur svo ég geti fyrirhafnarlítið virst mjórri... eða þannig... því ég minni á þessa mynd.
Ekkert hefur breyst... enn jafnmargar undirhökur... nema ég græt af harðsperrum í dag.
Ennþá með bumbu. Mikið af harðsperrum.
Já, uppskriftin. Hér er hún.
Good Morning Muffins staðfærð eftir upprunalegri uppskrift Ree Drummond
Í góða skál seturðu eftirfarandi:
4 bollar hveiti
1/2 bolli sykur
2 matskeiðar (ekki te-) lyftiduft
1/2 bolli smjör skorið smátt (helst búið að standa og er við stofuhita)
Blanda í annarri skál fyrst, trúðu mér... það er betra að gera þetta svona:
2 bollar appelsínumarmelaði (ekkert fínt marmelaði, þetta í stóru bláu plastdollunum)
1 bolli appelsínudjús
1 tsk vanilludropar
2 egg
Hella varlega saman við þurrefnin í hinni skálinni og ekki hræra oftar en 10 hringi með þeytaranum (égveit égveit... hljómar asnalega en þær verða léttari í sér ef þú hrærir ekki of mikið)
Setja í múffuform. Gera eins og ég. Kaupa silicon múffuform í Hagkaup. Misskilja verðið og fá 8 stykki á 199 krónur í stað 1.099. Ég keypti sko 6 pakka og græddi því rúmlega 5 þúsund kall á þessum skemmtilega verðmerkingaleik sem búðin stóð fyrir.
Mig minnir að ég hafi fengið 24 múffur úr þessum skammti. Þú bara prófar þig áfram. Fer allt eftir múffuformunum sem eru notuð þ.e.a.s. stærðinni.
Bráðnauðsynlegt ofan á hverja múffu:
Hræra saman 3/4 bolli sykur + 1 teskeið kanill + 1 teskeið malaður negull + 1/4 tsk salt.
Setja eina kúfulla teskeið ofan á hverja múffu áður en þær fara inn í ofninn.
Ofninn í 190 gráður og baka í 20 til 22 mínútur.
Takið úr formunum (nema þú notir pappírsform) og látið kólna.
Borða.
P.s. Ég bjó þær til deginum áður en ég hélt boð og hitaði þær upp í nokkrar mínútur þegar gestirnir komu. Virkaði vel. Þær kláruðust. Semsagt þrælgóðar.
Athugasemdir
smjatt smjatt
steinimagg, 13.1.2010 kl. 18:13
Mér sýnist þú koma múffunum fyrirhafnarlaust ofan í Steina ;)
Annars gengur merkilega illa að koma sér aftur í gírinn eftir jólasukkið. Það hefur alltaf verið erfiðast hjá mér, í staðinn fyrir að taka þetta einn dag í einu eins og maður á að gera, þá ákveð ég alltaf að sukka einn dag í viðbót og taka mataræðið föstum tökum næsta dag. Svo er bara langt liðið á sumar þegar mér tekst loks að snúa við blaðinu.
Hjóla-Hrönn, 13.1.2010 kl. 20:59
Þá er nú alveg tilvalið að gera morgunmúffurnar á laugardaginn með púkunum þínum. Þær eru svo góðar að þær hljóta að vera meinhollar.
Sigga Hjólína, 13.1.2010 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.