Bráðaofnæmi fyrir...?
25.11.2007 | 01:17
Vaknaði í vikunni snemma morguns og klæjaði hræðilega mikið á maganum. Fór inn á bað til að vekja ekki eiginmanninn og kveikti ljós til að skoða. Reif mig úr náttbuxunum. Hva? Eldrauður maginn? Hroðalegur kláði? Síðan færðist kláðinn yfir í lófana og ég gekk um gólf klukkan fimm að morgni og horfði undrandi á puttana á mér. Og lófana. Allt logaði af kláða og var eldrautt. Hvað var eiginlega í gangi? Hvað átti að gera? Leit í spegil og sá að eyrun voru líka orðin eldrauð. Nú voru góð ráð dýr! Þá fór tungan að bólgna..... hvað var nú að ske?
Var sem betur fer með gemsann hjá mér inni á baði til að sjá hvað klukkan væri. Ýtti á 112. Maður svaraði. "É hedd é þé me onnæmi. Gedurru þent þjúkabíl hinga þí dungan er þúeföld og ég á eðfiht me a tala?" Þurfti að tvítaka og þrítaka sumt því að ég var illskiljanleg, skiljanlega.
Eiginmaðurinn var vakinn til að láta hann vita hvert ég ætlaði og hann benti mér góðfúslega á að fara í eitthvað að neðan áður en sjúkrabíllinn kom. Ég var víst í svolitlu uppnámi. Sjúkarbíllinn skaust niður á Landspítala og ég fékk þar fínan lyfjakokteil til að slá á ofnæmið og útbrot sem höfðu breiðst um allan líkamann hurfu. Er nú með bráðaofnæmi fyrir? Verður athugað um miðjan des en þangað til er ég með galdrapennann á mér.
Galdrapenninn er víst lífgjafinn ef þetta gerist aftur. Heitir Epi-pen og er með adrenalín inni í sér. Má stinga í gegnum föt og allt. Næst verður það víst eiginlega þannig að hálsinn lokast, hugsanlega bólgnar tungan áður, kannski ekki... Enginn kláði fyrst eða viðvörun þ.e.a.s. ef ég kemst í tæri við ofnæmisvaldinn. Mér fannst læknirinn vera nú óþarflega svartsýnn þegar hann lýsti næsta ofnæmiskasti fyrir mér. Gerði mig bara taugaveiklaða ;o)
Heimilismenn og vinnufélagar hafa nú fengið upplýsingar og kennslu í að nota pennann á mig. Ég sá blik í augum sona minna þegar ég sagði að jú, það mætti stinga í rassinn ef ekkert annað væri í boði... Vona að þeir reyni nú við lærvöðvann fyrst ef svo ber undir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.