Í skólanum í skólanum
23.10.2011 | 18:07
Ekki seinna vænna að fara í skólann á gamals aldri. Það er ótrúlega erfitt að vera í skóla með vinnu en einhvern veginn tekst það. Held ég hafi aldrei haft eins mikið að gera á ævinni. Meistaranám er strembið að maður tali ekki um þegar það er tekið með vinnu.
Í dag litu óvænt við mæðgur og yndislegt að fá þær í heimsókn. Þær erfði ég frá stjúpu og þær eru kærkomin viðbót. Þær voru að skila diskum sem Eiginmaðurinn hafði lánað eiginmanni hinnar. Diskarnir voru þættir með League of Gentlemen. Ég skiiiiil ekki þann húmor, Eiginmaðurinn grætur af hlátri yfir þeim. Ekki ég. Það minnir mig á þegar við horfðum á Spaugstofuna ókeypis á RÚV. Ég var alltaf jafn pirruð yfir því að þetta væri sýnt á besta útsendingartíma en Eiginmaðurinn alltaf jafn ánægður og hló og flissaði yfir Spaugstofunni.
Ég er að setja mig í startholurnar með að gefa fuglagreyjunum hér í Grafarvogi eitthvað að borða í vetur. Það verður eitthvað búðargert, ekki líklegt að ég né Eiginmaðurinn nenni að handgera fæðið í ár. Það er hins vegar svo yndislegt að sitja með (koffínlausan) kaffibollann á morgnana og horfa út um stofugluggann á silkitoppa, snjótittlinga, skógarþresti og aðra skemmtilega fugla fá sér að borða. Starrinn kemur náttúrulega líka. Það er nóg af þeim hér. Því miður ekki hægt að fara í fulgreinarálit eða vinsa þá frá. Það eina skemmtilega við þá er að sjá hvað þeir eru tillitssamir við hópinn sinn. Allir fá að borða saman.
Að lokum... einn skólabrandari úr tíma í gær. Kennarinn var að tala um þríhyrning verkefnastjórnunar sem tengist tíma, gæðum og kostnaði. Sagði svo að í raun væri einn þátturinn í viðbót; Kröfur kaupandans. Þá væri þríhyrningurinn eiginlega ferhyrningur þrátt fyrir að alltaf væri talað um þríhyrning. Mér fannst þetta náttúrulega svo einstaklega "djúpt" að ég fór að flissa. Flissið varð síðan að niðurbældum hlátri og endaði á því að ég skaust út úr stofunni fram á gang til að komast yfir þetta áður en kennarinn fattaði að það væru ekki allir að hlusta á viskuperlurnar með andtakt. Þá vitiði það. Þríhyrningurinn er í raun ferhyrningur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.