Hamingja í fram- og afturheila
3.3.2011 | 18:25
Fórum í bústað nýlega. Svo mikil hamingja að það hálfa væri meira en nóg.
Á meðan ákvað einn unglingurinn að fara í partí með fullt af bjór. Draga vin sinn með sér heim, þennan sem gat ekki farið heim vegna ölvunar. Sófinn minn var útældur og búið var að þrífa hann hressilega þegar við komum heim. Samt gleymdist að gá undir sófann þar sem stór ælupollur hafði náð að þorna í parketinu. Grrr. Sófinn var þrifinn svo hressilega að nú er einn partur af sófanum vooooðalega hreinn. Grrrr.
En... ef við tökum einbeittan alkóhólvilja ákveðinna unglinga hér til hliðar þá...
er ég er búin að komast að því að það er kominn tími til að breyta um hugarfar og leyfa gleðinni að flæða inn. Það er búið að syrgja nóg þá sem eru farnir og velta sér uppúr örlagadísunum. Þetta er komið gott.
Ég hef ákveðið að hreinsa út það gamla og hleypa nýju og skemmtilegu að. Bara sleppa tökunum á því sem er skeð.
Það var tilviljun að ég fór á fyrirlestur hjá Helgu Guðrúnu, læfkótsj með meiru sem er staðsett í Dubaí. Hún sagði eitthvað sem festist í huga mér.
Framheilinn er það sem við notum til að hugsa hvernig við bregðumst við. Restin af heilanum byggir á því sem við höfum lært (í framheila) sem rétt viðbrögð við aðstæðum og dregur þau viðbrögð fram þegar við á.
Helga Guðrún var reyndar að tala um óhollustu og súkkulaði, tenginguna milli ánægju og súkkulaðis en ég fékk svona a-ha móment, hugljómun.
Minn aftari heili hefur verið fastur í því að gráta orðinn hlut, fólk sem ég hef misst, aðstæður sem hafa verið utan minna áhrifa, veikindi sem ég ræð ekkert við. Ég hef verið með áfasta skeifu framan í mér. Hver dagur hefur farið í að rifja upp sjúkdóma, dagana fyrir andlátin, stöðug leitun í það sem dregur upp sorgina í hugann.
Það má segja að eftir þennan fyrirlestur er ég öll í því að búa til "nýjar brautir" í aftari heilanum. Brautir gleðinnar. Það skiptir ekki máli þótt hér hugsi lesandinn, noh... bara svona mömbódjömbó... ef þetta virkar fyrir mig þá er það ók, þér má finnast þetta bara enn ein sýran.
Ég fékk svo yndislegt hláturskast með Eldri Syni í dag að ég pissaði næstum á mig. Mikið er hláturinn hressandi! Meira svona.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.