Góður nemandi
12.11.2010 | 15:34
Kennarinn í saumó sagði okkur svo yndislega og dagsanna sögu að ég verð að deila henni með ykkur hér.
Eitthvað var mórallinn lélegur hjá krökkunum í bekknum, einelti og leiðinlegheit, sem fór fyrir brjóstið á Kennaranum. Hún sagði því við krakkana að það væri til fræg setning, 2.000 ára gömul, sem væri svona:
Þið eigið að koma fram við aðra eins og þið viljið að þeir komi fram við ykkur.
Svo spurði Kennarinn, -Hver haldiði að hafi sagt þetta fyrir 2.000 árum?
Þögn í bekknum. Nemendur horfðu hver á annan. Ekkert svar.
Þá sagði Kennarinn, -Hann var með sítt hár og skegg. Uppi fyrir 2.000 árum.
Þögn í bekknum. Nemendurnir horfðu hver á annan. Ekkert svar.
Nú bætti Kennarinn við, -Hann var í síðri mussu og gekk um berfættur í sandölum. Með sítt hár og skegg.
Allt í einu rétti einn strákurinn upp hendina brosandi út að sínum 10 ára eyrum og sagði, -Ég veit! Ég veit! Þetta var róni.
Greyjið Kennarinn átti erfitt með að hlæja ekki upphátt að elsku krúttinu sem fannst svo rökrétt að berfættur maður með sítt hár í sandölum væri pottþétt róni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.